Úthlutað hefur verið úr Rannsóknasjóði Rannís styrkárið 2020 og hlaut verkefnið Fiskveiðar til framtíðar annan tveggja Öndvegisstyrkja.

Landbúnaðarháskóli Íslands hlýtur Öndvegisstyrk frá Rannís

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur hlotið öndvegisstyrk frá Rannís fyrir verkefnið Fiskveiðar til framtíðar. Verkefnisstjórar eru Erla Sturludóttir lektor við Landbúnaðarháskólann og Gunnar Stefánsson prófessor við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og erlenda vísindamenn. Það snýr að þróun vistkerfislíkana fyrir hafið en vistkerfislíkön geta verið gagnleg við ákvarðanatöku varðandi aflamark og til að svara spurningum er tengjast vistkerfinu sjálfu. Þá hafa þau líka verið notuð til að skoða félagsleg og hagræn áhrif af nýtingu sjávarauðlinda. „Það fer algjörlega eftir gerð þessara líkana hvernig hægt er að nota þau, sum þeirra er einstofnalíkön sem henta til að skoða aflamark meðan önnur innihalda allan fæðuvefinn og fiskveiðar og er þá hægt að skoða áhrif mismunandi fiskveiðistefna á vistkerfið. Svo eru líkön sem eru enn umfangsmeiri, þar sem búið er að tengja vistkerfislíkan við haglíkan. Þau er hægt að nota til að athuga hver félagsleg og hagræn áhrif yrðu ásamt áhrifum á vistkerfið við mismunandi ákvarðanatökur í stjórnkerfinu. Það er sem sagt hægt að prufukeyra fiskveiðistefnur í þessum líkönum áður en teknar eru ákvarðanir um þær,“ segir Erla.

Íslendingar hafa verið framarlega þegar kemur að stjórnun auðlinda hafsins, við vorum með fyrstu þjóðum til að setja aflamark og aflareglur. Sett var bann við brottkasti fyrst 1977 sem síðan hefur þróast með árunum en það var ekki fyrr en 2015 sem Evrópusambandið hóf innleiðingu á slíku banni. Næsta skref í fiskveiðistjórnun er vistfræðileg nálgun en þar spila vistkerfislíkön stórt hlutverk. Með þeim er hægt að skoða áhrif fiskveiða á aðra hópa vistkerfisins heldur en eingöngu þær tegundir sem veiddar eru eins og gert hefur verið hingað til.

„Þessi styrkur gefur okkur færi á að þróa betur þessa gerð líkana fyrir Íslandsmið en undirstaða líkanaþróunar fyrir vistkerfi sjávar er umfangsmikil og krefst þverfaglegrar alþjóðlegrar samvinnu, sem stefnt er að í þessu verkefni.“ 

Erla útskýrir að að gerð heildræns líkans fyrir hag- og vistkerfið standi m.a. tölfræðingar, hagfræðingar, sjávarvistfræðingar og fiskifræðingar. Hún segir að líkönin verða byggð á fyrirliggjandi gögnum úr fiskveiðum Íslendinga (lífmælingar, afli og haggögn) sem dæmi um hvernig innleiða megi vistfræðilega nálgun við stjórn fiskveiða um heim allan. 

„Helstu niðurstöður þessa verkefnis verða greiningar á stefnu stjórnvalda með stjórnendastefnuhermunum, hugbúnaður, þjálfun ungra vísindamanna og umhverfi til vefkennslu og miðlunar til hagsmunaaðila,“ segir Erla um verkefnið.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image