Hugmyndasamkeppnin Lambaþon stóð yfir dagana 9.–10. nóvember. Keppt var um bestu hugmyndina til að auka verðmætasköpun í verðmætasköpun í virðiskeðju sauðfjár. Allir gátu skráð sig og stóð til boða að vinna í húsakynnum Matís eða taka þátt í gegnum fjarfundakerfi. Liðin höfðu sólarhring til að vinna að hugmyndunum og var boðið uppá kynningar og örfyrirlestra og fengu liðin svo frjálsar hendur með framhald vinnunnar.
Alls kepptu 6 lið í keppninni, sem var hnífjöfn. Sigurhugmynd var „Kynnum kindina“, en hún gengur út á að kynna kindur sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og gefa ferðamönnum kost á að upplifa með auðveldum hætti ýmis störf í sveitum landsins sem tengjast sauðfé. Sigurliðið skipuðu Arnþór Ævarsson, Magnea Jónasdóttir og Kári Gunnarsson og hlutu þau 200 þúsund í verðlaun. Dómnefnd skipuðu Guðjón Þorkelsson, sem var formaður, Arnar Bjarnason, Bryndís Geirsdóttir, Gunnfríður Hreiðarsdóttir og Ragnheiður Héðinsdóttir.
Sigurliðið hefur jafnframt komið hugmyndavinnunni skrefi lengra þar sem enskt vinnuheiti „Sheepadvisor“ var nefnt sem möguleg leið til að komast nær erlendum gestum lands og þjóðar með þær upplýsingar sem kynna þarf fyrir erlendum ferðamönnum, hvort svo sem þær snúast um það hvar má bragða á réttum sem unnir eru úr sauðfjárafurðum, hvar vörur úr íslenskri ull eru seldar, hvaða viðburðir eru á döfinni sem viðkoma sauðfjárrækt eða hvað annað sem þurfa þykir.
Fyrirkomulagið
Auglýst var eftir fjórum til átta manna liðum til þátttöku. Hugmyndir voru metnar af dómnefnd samkvæmt eftirfarandi atriðum:
- Hversu mikið eykst verðmætasköpun bónda sem hrindir hugmyndinni í framkvæmd.
- Hversu mikið ávinnst fyrir neytendur. Felur hugmyndin í sér uppbyggjandi tillögur um starfsumhverfi bænda?
- Felur hugmyndin í sér jákvæð umhverfisáhrif?
- Felur hugmyndin í sér þróun nýrra vara eða þjónustu?
- Hugmyndir um markaðssetningu!
- Slær hjarta liðsins með hugmyndinni?
- Efnafræðin, orkan og framsetning!
Hugmyndir mátti setja fram á hvaða formi sem er og voru þær meðal annars metnar út frá því hve auðvelt er að miðla þeim til bænda og almennings á Íslandi. Mikil hugmyndaauðgi einkenndi keppendur og voru margar hugmyndir um áframhaldandi þróun og samstarf á lofti við lok keppninnar.
Að atburðinum stóðu Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landgræðslan, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, Matvælastofnun, Landssamtök sauðfjárbænda, Samtök ungra bænda, Háskóli Íslands og Icelandic Lamb.
Allar myndir eru frá Matís. Ljósmyndari Kristín Edda Gylfadóttir.