Fimmtudaginn 4. maí nk verður opið hús hjá búfræðinemum LbhÍ í áfanganum Búsmíði-járn, í Bútæknihúsninu (BÚT) á Hvanneyri. Nemendur bjóða öllum sem áhuga hafa, að koma og skoða smíðagripi sem þau hafa hannað og smíðað, á milli kl 14.30 og 15.30. Allir velkomnir! Heitt verður á könnunni.
Á vorönn er annars árs nemum í búfræði gefinn kostur á því að taka valáfanga í búsmíði sem kenndur er í bútæknihúsinu á Hvanneyri. Í áfanganum nýta nemendur þekkingu sína úr málmsmíði, sem einnig er kennd í búfræði, við smíði á nytjahlutum úr málmi sem nýst geta við landbúnaðarstörf heima á búum þeirra.
Kennslan fer eingöngu fram sem verklegar æfingar í málmsmíðum og meðferð ýmissa tækja. Nemendur hanna og smíða hlutinn í samstarfi við kennara og taka svo hlutinn heim með sér að námi loknu. Markmið áfangans er að nemendur öðlist færni í nýsmíðum og viðgerðum sem geta komið að gagni í almennum búrekstri. Hugmyndafluginu var gefið lausan tauminn og eru gripirnir jafn ólíkir og þeir eru margir, m.a. flokkunarhlið, klaufsnyrtibás og staurasleggja.
Í vor sátu 20 nemendur áfangann og hafa þau unnið hörðum höndum að því að smíða ýmis konar áhöld á önninni og notið til þess tilsögn frá kennara sínum, Hauki Þórðarsyni.