Jóhanna Gísladóttir hóf störf sem umhverfisstjóri við LBHÍ í vor. Hún var að ljúka sameiginlegri doktorsgráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og landfræði frá Stokkhólmsháskóla. Hún sinnti stundakennslu samhliða námi bæði í umhverfis- og auðlindafræði sem og stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og í sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða. Áður hafði hún stundað meistaranám við University of Bergen í Noregi og grunnnám við Háskóla Íslands. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á samspili manns og náttúru, en í rannsóknum sínum hefur hún skoðað regluverk í tengslum við nýtingu auðlinda, með áherslu á skógarhögg, jarðveg landbúnaðarlands og fiskveiði.
Í nýju starfi umhverfisstjóra felst innleiðing á nýrri loftlagsstefnu skólans sem er við gildi 2022-2024, en Landbúnaðarháskóli Íslands vill vera til fyrirmyndar í umhverfisvænum búrekstri, umhverfis- og náttúruverndarmálum og hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi í rekstri, stjórnun, starfsemi og uppbyggingu. Þá verður lögð áhersla á að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni til þess að skólinn leggi sitt af mörkum til þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir við undirritun Parísarsamkomulagsins. Þá hefur Jóhanna yfirumsjón með umhverfisbókhaldi skólans, umbótaverkefnum í umhverfis-og loftlagsmálum, og umsjón með útisvæðum á jarðeignum skólans. Þar að auki kemur hún að uppbyggingu á erlendu samstarfi og fjármögnun alþjóðlegra verkefna sem snúa m.a. að landnýtingu og landnotkun, ásamt kennslu, leiðbeinslu nemenda í rannsóknarverkefnum og birtingu greina.
Jóhanna kemur frá Akranesi og finnst forréttindi að vera komin með annan fótinn í Borgarfjörðinn.
„Ég kann mjög vel við hversu fjölbreytt starf þetta er, en síðan ég hóf störf hef ég sinnt verkefnum allt frá því að hafa umsjón með erlendu samstarfsverkefni fyrir hönd Landbúnaðarháskólans yfir í að skila inn grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar, slá gras á Hvanneyri á litlum traktor og mæla matarsóun eftir hádegismat í mötuneytinu. Hér liggja gríðarleg tækifæri varðandi rannsóknir, miðlun þekkingar og kennslu, ekki síst vegna þeirrar sérstöðu sem skólinn hefur. Innan skólans starfar yndislegt og lausnamiðað fólk sem brennur fyrir sínum störfum sem ég hlakka til að takast á við komandi verkefni sem hluti af þessu frábæra teymi starfsmanna“.