Jafnréttisdagar háskólanna hófust í dag og standa til föstudags. Boðið er uppá ýmsa viðburði og fræðslu þeim tengdum og eru þeir allir ókeypis og opnir öllum.
Jafnréttisdagar tvinna saman hinar ýmsu víddir jafnréttis og femínisma og skoða fjölbreytileika, forréttindi, þöggun, jafnréttisbaráttu, vald og mismunun. Áhersla er lögð á þau tækifæri sem skapast með því að setja hugmyndir um normið – hið „eðlilega“ – og hið undirskipaða undir smásjána.
Dagskráin er fjölbreytt og byggir á þverfaglegu samstarfi þar sem gerð er tilraun til að sameina hátíðarbrag og gagnrýna sýn á stöðu jafnréttismála. Leitast er við að skapa opna umræðu og aukinn skilning á jafnrétti ásamt því að auka sýnileika jafnréttismála og virkja slagkraft þeirra fjölmörgu aðila sem vinna að jafnrétti. Skipuleggjendur Jafnréttisdaga nálgast viðfangsefnin með fjölbreyttum hætti, svo sem með listviðburðum, fundum og málþingum, ákalli og verkfalli, opnu húsi, barsvari, ræðukeppni, vinnustofum og uppistandi.
Viðburðir fara fram í öllum skólunum sjö og er dagskráin samvinnuverkefni jafnréttisfulltrúa skólanna, fulltrúa stúdenta og hinna ýmsu sérfræðinga úr starfsliði skólanna og utan þeirra. Fimmtudaginn 7. febrúar verður jafnréttiskaffi á öllum starfsstöðum LBHÍ samtímis og er árleg spurningakeppni nemendafélagsins Viskukýrin um kvöldið haldin á Hvanneyri.
Nánari dagskrá og yfirlit yfir viðburði má finna á facebókar síðu Jafnréttisdaga