Nemendur og starfsfólk háskóla landsins stunda ýmiskonar rannsóknir í námi sínu og starfi. Kennarar við Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólann á Hólum skipulögðu sameiginlegan kynningarfund á rannsóknarverkefnum sem í gangi eru við stofnanirnar tvær. Hingað mættu 16 manns að norðan og voru þar á ferð bæði kennarar og nemendur í framhaldsnámi. Um 20 manns fluttu stuttar kynningar um viðfangsefni sín og af því sem þar kom fram má sjá að ýmsir áhugaverðir samstarfsfletir eru milli skólanna sem vert er að rækta enda viðfangsefnin mörg hver skyld.
Opinberu háskólarnir eru í samstarfi sín á milli og hefur svo verið síðan árið 2010. Markmiðin eru í fyrsta lagi efling íslenskra háskóla, kennslu og rannsókna, í öðru lagi aukin hagkvæmni í rekstri háskóla og í þriðja lagi að tryggja háskólastarfsemi víða á landinu. Verkefnið hefur einnig gengið undir heitinu "háskólanetið". Nemendum innan opinberu háskólanna stendur til boða að sitja námskeið í öðrum háskóla en sínum án vandkvæða.
Fjölmargir nýta sér þessa leið til að auka við sig þekkingu og sérhæfingu.