Hjálmar Skarphéðinsson (t.h) segir frá ferli þörungaræktuninnar en mikil vinna hefur farið í að mæla og stýra umhverfisþáttum við ræktunina. Gunnlaugur Karlsson til vinstri. Ljósmynd LbhÍ
Hægt er að mæla og stýra umhverfisþáttum við ræktunina sem máli skipta og framleiða þannig verðmæta úrvalsvöru. Mynd LbhÍ
Í síðustu viku var fundur með fulltrúum Omega Algae og Landsvirkjunar að Reykjum. Omega Algae hefur á undanförnum árum þróað þörungaræktun og leigt tilraunaaðstöðu í rannsóknagróðurhúsi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum. Þróunarstjóri fyrirtækisins Hjálmar Skarphéðinsson og aðrir starfsmenn sýndu tilraunauppsetninguna og sögðu frá stöðu mála og framtíðaráformum.
“Þörungaræktunin hefur gengið vel hér þar sem við getum mælt og stýrt umhverfisþáttum sem máli skipta fyrir ræktunina. Við erum að framleiða úrvalsvöru sem inniheldur gæðaprótein og omega-3 fitusýruna EPA. Slík vara er eftisóknarverð og afar verðmæt, enda um vegan afurð að ræða”, segir Gunnlaugur Karlsson stjórnarformaður fyrirtækisins.
Að lokinni kynningu Omega Algae hélt Sigurður H. Markússon frá Landsvirkjun erindi þar sem hann sagði frá meistaraverkefni sem hann hefur unnið á undanförnum misserum við breskan háskóla um þau tækifæri sem felast í frekari nýtingu innlendrar og endurnýjanleganlegrar orku til að efla matvælaframleiðslu á Íslandi.
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor LbhÍ segir gríðarleg tækifæri fólgin í auknu samstarfi við fyrirtæki, sveitarfélög og aðra hagaðila á sviði aukinnar ræktunar og matvælaframleiðslu með nýtingu innlendrar orku og þá ekki síst jarðvarmans. Skólinn hefur einstaka aðstöðu að Reykjum til rannsókna og þróunar og til að veita sprotafyrirtækjum aðstöðu til nýsköpunar. Omega Algae er gott dæmi um slíkt og vill skólinn bjóða fleiri fyrirtækjum upp á slíkt samstarf.