Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands )LBHÍ) býður upp á nokkur pláss á námskeið um heilbrigði plantna sem er 4 ECTS eininga námskeið á háskólastigi. Þátttakendur sitja sama námskeið og nemendur í BS námi í Skógfræði og Náttúru- og umhverfisfræði við LBHÍ. Námskeiðið er 7 vikna langt frá 21. ágúst - 2. október.
Á námskeiðinu er byrjað á að fjalla um skaða vegna ólífrænna umhverfisþátta svo sem veðurs, með áherslu á frostskemmdir. Gefin verður innsýn í heim örvera og smádýra sem skaða plöntur, áhrifum skaðvaldanna á plönturnar og vörnum plantna gegn þeim verður einnig lýst.
Því næst er fjallað um lífrænar varnir og gagnlegar örverur og smádýr og á síðari hluta námskeiðsins verða skaðar á einstökum tegundum og ættkvíslum teknir fyrir, m.a. sjúkdómar og meindýr á mikilvægum plöntutegundum og ættkvíslum hér á landi. Skaðar í plöntuuppeldi eru einnig ræddir og farið yfir lög og reglugerðir sem snerta plöntuheilbrigði.
Við lok námskeiðsins eiga nemendur að hafa tileinkað sér víðtæka þekkingu og skilning á þeim umhverfisþáttum og lífverum sem hafa áhrif á plöntuheilbrigði, og þekkja orsakir og alla algenga skaða á helstu tegundum nytjaplantna sem vaxa hér á landi.
Námskeiðið er kennt í fjarnámi og 2 staðlotum. Allar upptökur eru aðgengilegar á kennsluvef skólans.
Skráning og allar nánari upplýsingar má nálgast hér.