Harpa Stefánsdóttir prófessor við deild Skipulags & Hönnunar

Harpa Stefánsdóttir prófessor við fagdeildina Skipulag & Hönnun

Harpa Stefánsdóttir hóf störf í upphafi haustannar sem prófessor við fagdeildina Skipulag & Hönnun. Harpa mun í stórum dráttum hafa umsjón með menntun á meistarastigi í skipulagsfræði og vinna að rannsóknum á fræðasviðinu.

Harpa lauk doktorsprófi í skipulagsfræðum frá Norges- miljø og biovitenskaplige universitet (NMBU) haustið 2014, þar sem hún gegndi stöðu dósents við skipulagsfræðideildina (Institutt for by- og regionplanlegging, BYREG) þegar hún hóf störf við LBHÍ nú í haust. Harpa hefur um árabil stundað rannsóknir á sviði skipulagsfræða, komið að stjórnunarstarfi tengt 5 ára námi í greininni, leiðbeint framhaldsnemum og haft umsjón með námskeiði í grunnnámi í störfum sínum við NMBU. Framhaldsmenntun Hörpu er í arkitektúr en hún lauk námi frá Arkitekthøgskolen i Oslo árið 1993 og starfaði sem arkitekt á Íslandi til haustsins 2010 þegar hún fékk styrkþegastöðu til að vinna að doktorsverkefni við NMBU. Harpa hefur því mikla og víðtæka starfsreynslu, bæði hagnýta og fræðilega.

Við NMBU tók Harpa þátt í uppbyggingu sérstakrar deildar í skipulagsfræði innan sviðsins landslag og samfélag Faculty of Landscape and Society, en deildin er í forystu á sínu sviði í Noregi. Innan sviðsins hefur hún auk þess verið í samstarfi við deild í lýðheilsufræðum og landslagsarkitektúr.

Framtíðarsýn Hörpu varðandi rannsóknir og þróun fræðasviðsins tengist sterklega aðstæðum í byggðu umhverfi á Íslandi og möguleikum til að stuðla að sjálfbærni með bættu skipulagi. Þá hefur hún að leiðarljósi sértæka staðhættir, s.s. vegna hnattrænnar legu, náttúrufars og staðaranda. Eitt af aðal áherslusviðum hennar í rannsóknum varðar gildi og upplifun fegurðar, sem mælikvarða á gæði í borgarumhverfi. En hún stefnir að því að byggja upp frekar rannsóknir varðandi upplifun fólks á gæðum í byggðu umhverfi, t.d. tengt þéttingu byggðar og vistvænum samgöngum.

Ég hlakka til að leggja af mörkum við frekari uppbyggingu náms og rannsókna innan deildar skipulagsfræði og hönnunar við LBHÍ. Ég lít svo á að starfið sé mikilvægt uppbyggingarstarf fyrir greinina á Íslandi og að starfsreynsla mín frá Noregi sé gott veganesti til að geta stuðlað að slíkri uppbyggingu af krafti. Í því felast ýmsar áskoranir, einkum vegna smæðar samfélagsins og deildarinnar.

Framtíðarsýn Hörpu um uppbyggingu náms í skipulagsfræðum við LBHÍ tengist möguleikum þess að efla samtvinnun milli fræðasviða og bæta samstarf milli þeirra tengt viðfangsefnum skipulagsmála. Þetta er mikilvægt til að stuðla að þverfaglegri umræðu og til að skapa nauðsynlega stærð nemendahópa. Þannig má koma á frekara samstarfi milli námsbrautar í skipulagsfræði og landslagsarkitektúr, auk námsbrauta við aðra háskóla. Auk þessa er það að mínu mati kostur að nemendur komi úr mismunandi grunngreinum þegar þeir hefja meistaranám í skipulagsfræði við LBHÍ. Skipulagsfræðingar gegna lykilhlutverki í að samþætta sjónarmið fleiri greina. Þetta er hægt að þjálfa enn frekar í námi með því að þróa samstarfsnámskeið þar sem námsfólki í mismunandi greinum (s.s. í skipulagsfræði, landslagsarkitektúr, arkitektúr, landafræði og félagsvísindagreinum) er teflt saman í að vinna verkefni tengt skipulagi byggðs umhverfis. Slíkt hefur verið í þróun í Noregi við góðan árangur.

Við bjóðum Hörpu velkomna til starfa og verður spennandi að fylgjast með deildinni til framtíðar.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image