Guðmunda Smáradóttir hefur verið ráðin í starf mannauðs- og gæðastjóra við LBHÍ og hóf hún störf þann 1.janúar 2020.
Guðmunda er með meistaragráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun og stefnumótun. Þá hefur hún lokið PLD námi (Program Leadership Development) frá IESE viðskptaháskólanum í Barcelona, auk þess að hafa lokið markþjálfunarnámi og sótt námskeið í opinberri stjórnsýslu í MPA námi við HÍ, auk fjölda annarra stjórnunartengdra námskeiða.
Nú síðast starfaði Guðmunda sem starfsþróunarstjóri hjá Valitor, en þar áður sem forstöðumaður Opna háskólans í HR. Ennfremur hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri símenntunarmiðstöðvar og að markaðs- og fræðslumálum hjá FÍS (nú félag atvinnurekenda), þá hefur hún gegnt ýmsum nefndar- og félagsstörfum.
„Ég hlakka til þessa að takast á við starfið og þær spennandi áskoranir sem LBHÍ stendur frammi fyrir. Skólinn hefur sett fram metnaðarfulla stefnu til næstu ára sem skóli lífs og lands og er það tilhlökkunarefni að taka þátt í þeirri spennandi vegferð sem framundan er.“ Segir Guðmunda um sýn sína til starfsins.
Við bjóðum Guðmundu velkomna til starfa.