Nú fer að síga á seinnihluta vorannar 2018 hjá LbhÍ og má merkja það t.a.m. á framboði næstu endurmenntunarnámskeiða hjá Endurmenntun LbhÍ. Námskeiðin verða „grænni og grænni“.
Framundan eru ræktunarnámskeið hverskonar eins og t.a.m. Gotterí í garðinum þar sem Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur mun fjalla um allt það sem snýr að ræktun matjurta í heimilisgarðinum. Í byrjun maí verður síðan námskeið sem fjallar um fjölæringa og þá farið yfir helstu plöntutegundir fyrir beð og opin svæði út frá fagurfræðilegu sjónarhorni og búsvæðavali. Námskeið um uppbyggingu og gerð grænna veggja verður einnig í boði í lok apríl en notkun grænna veggja á heimilum, fyrirtækjum og stofnunum er orðin mjög áberandi í allri Evrópu og Ameríku. Ýmis atriði varðandi uppbyggingu, hönnun og umhirðu grænna veggja verður aðalviðfangsefnið á námskeiðinu.
Skógræktarnámskeið eru áberandi og mun trjáfellingarnámskeið verða haldið á Akureyri 13.-15. apríl. Á sama tíma verður haldið námskeið í Borgarfirðinum þar sem verður fjallað um umhirðu ungskóga. Þá er ekkert lát á áhugasömum aðilum sem sækja torf- og grjóthleðslunámskeið hjá skólanum á Reykjum í Ölfusi. Feðgarnir Guðjón Kristinsson og Gunnar Óli Guðjónsson fara þar fremstir í flokki þegar kemur að því að miðla áfram þessu gamla handverki okkar.
Ásókn í blómaskreytinganámskeið þetta vorið er mikil, búið er að fylla nú þegar tvö grunnnámskeið sem haldin verða í apríl og eins bókast hratt á vinnusmiðju með Frascoise Week sem haldin verður í byrjun september.
Í upphafi sumars mun náttúrufræðingurinn og handverkskonan Guðrún Bjarnadóttir kenna á tveimur jurtalitunarnámskeiðum, sem bæði verða haldin í Hespuhúsinu í Andakíl í Borgarfirði.