Fagdeildir skólans eflast

Góð aðsókn næsta haust

Góð aðsókn er í Landbúnaðarháskóla Íslands næsta haust en alls sóttu yfir 200 framtíðar-nemendur um nám á háskólabrautir eða í búfræði, en ekki er tekið inn í garðyrkjunám í ár. Flestar umsóknir bárust í BSc nám í búvísindum og næstflestar í landslagsarkitektúr auk þess sem mikil aðsókn er í búfræðinám. Áhugavert er að skoða þróun síðustu ára, en heilt yfir hefur nemendafjöldi skólans tvöfaldast á undanförnum árum og á það við um öll námsstig, starfsmenntanám á framhaldsskólastigi, grunnnámið (BSc) og framhaldsnámið (MSc og PhD).

Einnig er forvitnilegt að rýna í skiptinguna á milli brauta og hvernig þær hafa þróast, sem sýnir að öll fagsviðin eru í sókn. Haustið 2019 var áhugi nýrra nemenda mestur á skógfræði og náttúru- og umhverfisfræði. Ári síðar haustið 2020 féllu öll met í umsóknafjölda í landslagsarkitektúr og garðyrkju, nánar tiltekið í lífræna ræktun matjurta og ylrækt. Í ár eru það svo búvísindin sem heilla mest og rímar það vel við aðstæður í samfélaginu um þessar mundir þar sem áhugaverð og jákvæð umræða er um fæðuöryggi og landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Mikilvægt er að mennta fólk á því sviði til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Nýlega var lagt fram umræðuskjal um nýja landbúnaðarstefnu og unnið er að fæðuöryggisstefnu sem mun byggja á skýrslu sem Landbúnaðarháskólinn vann fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti á síðasta ári.

Allar fagdeildir skólans eflast

Allar námsbrautir Landbúnaðarháskóla Íslands heyra undir þrjár fagdeildir sem eru Ræktun & Fæða, Náttúra & Skógur og Skipulag & Hönnun. Það er einkar ánægjulegt að sjá nemendafjöldann aukast á öllum deildum skólans og á undanförnum þremur árum hafa þær skipst á að eiga metaukningu í nemendafjölda. Fagdeildirnar þrjár og námsbrautirnar þeirra fjalla um þau málefni sem eru hvað mikilvægust í umræðunni í dag og snúa að grundvallarþáttum í samfélagi okkar, en það eru matvælaframleiðsla og fæðuöryggi, þróun landbúnaðar, nýting náttúruauðlinda, skipulagsmál, umhverfis- og loftslagsmál, byggðaþróun og efnahagslífið í heild, með áherslu á sjálfbærni.

 

Skóli í sókn

Rannsóknatengt framhaldsnám hefur verið að eflast með nýjum samstarfsverkefnum og uppbyggingu innviða. Meistara- og doktorsnemendur hafa aldrei verið fleiri í sögu skólans og styður sú þróun við uppbyggingu þekkingar og almenna starfsemi skólans. Aukinn áhugi á starfsmenntanámi skólans hefur einnig verið vel sýnilegur og greinilegt að áherslur stjórnvalda um eflingu verknáms hafa skilað góðum árangri. Samhliða er unnið að því að styrkja endurmenntun í samvinnu við atvinnulífið og styðja betur við nýsköpun og þróun á landsbyggðinni. Landbúnaðarháskóli Íslands er skóli í sókn og hefur í samstarfi og með góðum stuðningi stjórnvalda og samkeppnissjóða lagt aukna áherslu á að bæta innviði til kennslu og rannsókna og efla starfsemina enn frekar með öflugu samstarfi við hagaðila. Sá grunnur sem lagður er mun styðja við nýja landbúnaðarstefnu Íslands til framtíðar.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image