Gengið frá samningi við nýja ábúendur á Hesti

Föstudaginn 11. september var undirritaður samstarfssamningur við nýja rekstraraðila að tilraunafjárbúinu á Hesti í Borgarfirði. Úr hópi 12 umsækjanda var ákveðið að ganga til samninga við þau Snædísi Önnu Þórhallsdóttur og Helga Elí Hálfdánarson, en þau eru bæði búfræðingar frá LbhÍ. Helgi Elí hefur auk þess lokið meistaragráðu frá skólanum en Snædís hefur tekið sér hlé frá meistararitgerðarskrifum í bili. Á meðfylgjandi mynd eru auk nýju búrekstraraðilanna Björn Þortsteinsson rektor (lengst t.h.) og Þóroddur Sveinsson lektor sem hefur verið sérstakur verkefnisstjóri endurskipulagningar búrekstrar Landbúnaðarháskólans þar með talið undirbúnings samningsins um Hestbúið í umboði rektors.

Háskóli Íslands
Þóroddur, Snædís, Helgi og Björn rektor LbhÍ

Samningurinn snýr að almennum rekstri búsins, og aðstöðu Landbúnaðarháskóla Íslands til kennslu og rannsókna á búinu. 

Þau Snædís og Helgi segjast hafa ýmsar hugmyndir um breytingar á búinu en meðal þeirra var að koma fréttum úr fjárbúinu á alnetið. Tilraunabúið á Hesti er nú komið með Facebook síðu og eru áhugasamir hvattir til að  líka við síðuna og fylgjast með. 

Hér fyrir neðan er viðtal sem blaðamaður Skessuhorns tók nýlega við þau Snædísi og Helga og er birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra.

Nýir ábúendur hafa tekið við rekstri fjárbúsins á Hesti í Borgarfirði. Það eru þau Snædís Anna Þórhallsdóttir og Helgi Elí Hálfdánarson búfræðingar frá Hvanneyri. Blaðamaður Skessuhorns tók sér bíltúr upp í Borgarfjörðinn og kíkti í kaffi á Hesti. Snædís og hundurinn Lukka tóku vel á móti blaðamanni, Helgi kom svo að vörmu spori. „Ég kem frá Akureyri en Helgi ólst upp á Háhóli á Mýrum. Við kynntumst á Hvanneyri þegar við byrjuðum þar í námi árið 2009. Við vorum þá bæði í BS námi í búvísindum og útskrifuðumst úr því námi 2012. Okkur og fleirum úr okkar bekk þótti vanta eitthvað meira verklegt í námið svo við ákváðum að bæta búfræði við okkur og kláruðum það nám 2013. Samhliða búfræðináminu byrjuðum við í MS námi í búvísindum og Helgi lauk því námi nú í vor en ég stefni á að klára um jólin,“ segir Snædís.

Rekstur fjárbúsins á Hesti var, ásamt kúabúinu á Hvanneyri, í höndum Grímshaga ehf. en tekin var sú ákvörðun að endurskipuleggja rekstur þessara búa. Auglýst var eftir áhugasömu fólki með menntun í búfræði og reynslu af búrekstri til að reka búið á Hesti. Þau Snædís og Helgi voru valin úr hópi umsækjenda og tóku þau við búinu 1. júní. „Það hefði vel verið hægt að finna þægilegri tíma til að taka við svona búi en þetta er háannatími,“ segir Snædís og hlær. „Það hefur þó allt gengið mjög vel,“ bætir hún við.

Lukka var fyrsta verk

Aðspurð um hvernig fyrstu mánuðirnir hafa verið segjast þau fyrst og fremst hafa haft nóg að gera en að jafnframt hafi þetta verið mjög skemmtilegt. „Fyrsta verk var náttúrulega að fá sér fjárhundinn,“ segir Snædís og horfir á hana Lukku sem hoppar um kaffistofuna í von um að ná einni flugu. „Þegar við tókum við voru allar ær bornar svo við fórum eiginlega bara beint í sumarstörfin. Við vorum að girða í tvær vikur í júní og svo kom heyskapur, en fyrri sláttur gekk mjög vel. Við fórum líka að reka á fjall, en þar sem þetta bú er kennslu- og tilraunabú þurfti að vigta öll lömb áður en þau fóru á fjall, það var hellings vinna. Einnig höfum við verið að taka til, þrífa og koma okkur fyrir hér. Fjölskyldur okkar hafa líka hjálpað mjög mikið og erum við mjög heppin með fólkið í kringum okkur,“ segir Helgi og bætir því við að þau séu afar þakklát allri þeirri aðstoð sem fjölskyldur þeirra hafa veitt þeim. „Foreldrar hennar Snædísar búa á Akureyri en mamma hennar hefur örugglega verið hér samanlagt í mánuð að hjálpa okkur og pabbi hennar í svona þrjár vikur allavega. Svo hafa bara allir verið tilbúnir að hjálpa, pabbi að keyra rúllur, mamma eldaði stórveislur í mannskapinn og systkini og frændfólk hafa komið og hjálpað til við ýmislegt,“ bætir Helgi við. „Já, mamma stökk nú bara á veggina og fór að þrífa og pússa,“ segir Snædís og brosir og bætir því við að þau hafi mjög gott bakland.

„Við höfum einhverjar hugmyndir um breytingar á búinu en það eru bara hugmyndir sem ég geri ráð fyrir að eigi eftir að þróast og breytast. Það er mjög erfitt að sjá út hvernig við viljum hafa hlutina þegar féð er enn úti. Fyrsta árið fer væntanlega bara í að koma okkur fyrir og læra á allt, maður er nú enn að læra á allt á nýjum stað,“ segir Helgi og hlær. „Það er fullt af möguleikum fyrir hendi hér og sjálfri þykir mér spennandi að opna fjárhúsin fyrir almenningi, þá til að gefa fólki kost á að koma og sjá hvernig er á svona sauðfjárbúi. Einnig langar mig að prófa að selja beint frá býli,“ segir Snædís. Þau segjast samt vera búin að taka ákvörðun um eina breytingu og það er að fækka fénu og hafa svona um 680-700 ær, allavega til að byrja með.

 Háskóli Íslands
Helgi, Snædís og Lukka. Mynd fengin frá ritstjóra Skessuhorns.

Upplagt tækifæri

Aðspurð hvort það hafi alltaf staðið til hjá þeim að fara út í búskap segja þau það alltaf hafa komið til greina. „Við gerðum kannski ekki ráð fyrir því að hefja búskap núna en það hefur alltaf komið til greina. Okkur langaði jafnvel að flytja að Háhóli og koma eitthvað að búskapnum þar. Við hefðum þó alltaf þurft að vinna úti líka og það er ekki mikið um laus störf sem tengjast okkar menntun hér á þessum landshluta. Við vorum bara að ljúka námi og rétt farin að hugsa hvað kæmi næst. Þegar við sáum svo auglýst hér þótti okkur þetta upplagt fyrir okkur, alveg frábært tækifæri. Við getum vonandi verið hér í einhvern tíma og svo er aldrei að vita, kannski flytjum við að Háhóli einn daginn,“ segir Snædís.

Skólastarfið að fara af stað

Nú er sumarið að líða undir lok og stefna þau Snædís og Helgi á að hefja seinni slátt í þessari viku. „Háarsprettan er misjöfn en vonandi næst hún af góðum gæðum,“ segir Helgi. Skólastarfið á Hvanneyri fer að detta í gang á næstu dögum og þá verður einnig mikið að gera á Hesti. Þangað koma nemendur í verklega kennslu. „Nú fer sauðfjárskóli RML að byrja og þá koma nemendur hingað í kennslu um lambadóma. Við rekum þá inn lömb fyrir þau. Nýnemar frá Landbúnaðarháskólanum kíkja líka hingað fljótlega og svo fer kennsla að hefjast. Námið hefur verið endurskipulagt og það verður aukið vægi á verklegan hluta og því örugglega meira að gera hér líka,“ segir Helgi. „Smalamennskur byrja svo 15. september og svo þarf að velja ásetning og flokka sláturlömbin. Öll lömb eru vigtuð og bakvöðvi þeirra ómmældur og nemendur frá Hvanneyri munu væntanlega koma og taka einhvern þátt í því. Það er því eitt og annað framundan,“ segir Helgi að lokum

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image