Dagana 3.-6. október 2016 fer fram vinnufundur á vegum DAVA (Domestic Animals in the Viking Age. Migration, trade, environmental adaptation and the potential of multidisciplinary studies) verkefnisins í Landbúnaðarháskóla Íslands Keldnaholti. Þar munu tuttugu fræðimenn víðs vegar að frá Norðurlöndunum hittast og ræða um stöðu rannsókna á norrænum húsdýrastofnum á víkingaöld og leggja drög að næstu skrefum. Á meðal þeirra sem sækja fundinn eru doktorsnemar, nýdoktorar og sérfræðingar á sviðum fornleifafræði, erfðafræði og fornDNA rannsókna. Verkefninu er stýrt af Juha Kantanen prófessor við Natural Resources Institute Finland (LUKE) en þátttakendur fyrir hönd LbhÍ eru Jón Hallstein Hallsson og Albína Hulda Pálsdóttir. Vinnufundurinn er styrktur af Joint Committee for Nordic research councils in the Humanities and Social Sciences (NOS-HS).
Vinnufundurinn er lokaður en fimmtudaginn 6. október verða tveir opnir fyrirlestrar á vegum DAVA kl. 12.05-13.00 í Hátíðarsal aðalbyggingar Háskóla Íslands. Fyrirlestrarnir fara fram á ensku. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.
Fyrri fyrirlesarinn er prófessor Ludovic Orlando, Centre for GeoGenetics, Natural History Museum of Denmark, Háskólanum í Kaupmannahöfn og heitir fyrirlestur hans Ancient DNA in the Big Data era: from molecules to genomes and ecosystems. Dr. Ludovic Orlando er einn fremsti vísindamaður heims á sviði fornDNA greininga og hefur meðal annars komið að greiningu á 700.000 ára gömlu beini úr forfeðrum hestsins og leiddi teymið sem greindi erfðamengi allra núlifandi dýra af hestaætt.
Seinni fyrirlesarinn er Jan Bill prófessor í víkingaaldarfornleifafræði og forstöðumaður Víkingaskipssafnsins í Museum of Cultural History í Osló. Fyrirlestur hans ber heitið Viking Age ship graves and royal origin myths. Jan Bill stýrir nú stóru verkefni þar sem skipskumlið frá Gaukstað, sem fannst árið 1880, er rannsakað að nýju þar með talið skipið, manna- og dýrabein og gripir með öllum nýjustu aðferðum og niðurstöðum miðlað með útgáfu bókar, greina og nýrrar sýningar.