Fyrsta greinin í hefti 32/2019 var að koma út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences.
Greinina má nálgast hér
Greinin, Erfðastuðlar fyrir íslenskar mjólkurkýr með mælidagalíkani, er eftir þau Jón H. Eiríksson, Ágúst Sigurðsson, Guðmund Jóhannesson og Emmu Eyþórsdóttur.
Í þessari viðamiklu rannsókn voru alls 480.495 mælingar á daglegri nyt 33.052 íslenskra kúa notaðar til að meta erfðastuðla fyrir mjólkurmagn, fitumagn, próteinmagn og frumutölu á fyrstu þremur mjaltaskeiðum með slembiaðhvarfslíkani. Í ljós kom að arfgengi allra eiginleika reyndist lægst í upphafi mjaltaskeiðs en hæst um eða eftir mitt mjaltaskeið. Þá var arfgengi afurðaeiginleika metið hærra í þessari rannsókn en í eldri rannsóknum á stofninum. Athyglisverð niðurstaða var ennfremur að erfðabreytileiki á mjólkurúthaldi í stofninum gerir kleift að breyta lögun mjaltakúrfunnar fyrir íslenskar kýr með úrvali.
Þetta er afar mikilvægt framlag fyrir framþróun í kynbótum á íslenska kúastofninum.
Þorsteinn Guðmundsson
ritstjóri IAS