Hefur þú áhuga á að vita meira um grunnatriði í þjálfunarlífeðlisfræði hesta og helstu aðferðir við þjálfun og uppbyggingu hesta?
Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands býður upp á 7 vikna bóklegt og verklegt námskeið í þjálfunarlífeðlisfræði hesta þar sem Sonja Líndal Þórisdóttir dýralæknir, hrossaræktandi og reiðkennari fer yfir orkuefnaskipti og orkubúskap vöðvanna við þjálfun og fjallar ítarlega um áhrif þjálfunar á öndurnarfæri, hjarta- og æðakerfi, beinagrindarvöðva, bein, liði og sinar. Einnig kynnir hún aðferðir til að meta þjálfunarástand hesta fyrir nemendum.
Nemendur geta nýtt þekkinguna úr námskeiðinu við þjálfun hesta og læra hvernig meta má þjálfunarástand þeirra út frá prófunum, s.s. hjartsláttarmælingum og mjólkursýrumælingu.
Námskeiðið hentar öllum sem eru með líffræðigrunn eða hafa lokið námi í búfræði/búvísindum, en getur reynst erfitt þeim sem skortir grunnþekkingu í líffæra- og lífeðlisfræði eða lífefnafræði.
Námskeiðið er hluti af BS námi í Hestafræði við Landbúnaðarháskólann og nemendur sem sækja námskeiðið í gegnum Endurmenntun sitja sama námskeið og nemendur í Hestafræði. Námskeiðið er metið til 4 ECTS eininga á háskólastigi.
Námskeiðið er kennt í fjarkennslu og upptökur aðgengilegar nemendum á kennsluvef skólans allan sólarhringinn. Skyldumæting er í verklega tíma, en stundaskrá liggur ekki enn fyrir og því ekki hægt að gefa upp dagsetningar verklegra tíma enn sem komið er.
Kennsla hefst um miðjan október og lýkur 3. desember.
Námsmat er 20% skriflegt verkefni, 10% kennaraeinkunn og 70% skriflegt próf.
Skráning og nánari upplýsingar er hægt að nálgast á vef Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands.