Vinna við endurheims staðargróðurs á Þingvallavegi. Mynd Steinunn Garðarsdóttir

Endurheimt staðargróðurs á framkvæmdasvæðum

Nýlega lauk endurbótum á vegi í gegn um þjóðgarinn á Þingvöllum og á málþingi sem haldið var við opnun vegarins á dögunum hélt Steinunn Garðarsdóttir, sérfræðingur og MS nemi við LbhÍ erindi um aðkomu skólans að framkvæmdinni.

Vegurinn liggur um viðkvæmt svæði og því var lögð áhersla á að takmarka rask á gróðri við framkvæmdina og ná sem fyrst fyrri ásýnd hans. Gamla vegstæðinu var fylgt en vegurinn breikkaður og byggður upp. Stórar gróðurtorfur voru teknar af því landi sem fór undir breikkun vegarins, og þeim síðan komið aftur fyrir í nýjum vegfláum jafnóðum og þeir voru tilbúnir. Þar sem torfurnar mega ekki bíða of lengi áður en þær eru lagðar út, og mikilvægt að nota torfurnar sem næst upprunastað, voru þær geymdar tímabundið á veginum á meðan unnið var á hverju svæði. Aðgerðin markar viss tímamót þar sem þetta er í fyrsta sinn sem þessari aðferð er beitt á svona stórum skala hér á landi.

Við skipulag verkefnisins var leitað til sérfræðinga við Landbúnaðarháskólann varðandi ráðgjöf. LbhÍ er eini háskóli landsins sem býður upp á nám á sviði vistheimtar og allmiklar rannsóknir á vistvænum lausnum við frágang á framkvæmdasvæðum verið unnar við skólann á síðustu áratugum. Af rannsóknaverkefnum á þessu sviði má t.d. nefna rannsóknir á endurheimt staðargróðurs í stamstarfi við OR/ON á Hellisheiði og samstarfsverkefni með Vegagerðinni um vistvænar lausnir við frágang á vegsvæðum (VegVist). Bæði þessi verkefni voru unnin undir stjórn Ásu L. Aradóttur, prófessors við LbhÍ en hún og Steinunn komu að ráðgjöf vegna frágangs á gróðri við gerð Þingvallarvegar. Nú í haust gerði Steinunn, ásamt fleiri starfsmönnum LbhÍ, gróðurfarsmælingar í vegfláum sem gengið var frá í fyrri áfanga verksins sumarið 2018, og í aðliggjandi staðargróðri, til að meta árangur torfuflutninganna. Mælingarnar eru þáttur í MS verkefni Steinunnar í náttúru- og umhverfisfræðum við LbhÍ, sem fjallar um innleiðingu mismunandi aðferða við endurheimt staðargróðurs og mat á árangri þeirra.

Nánari upplýsingar um Þingvallaveg

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image