Innviðasjóður styrkir tækjakaup vísindamanna við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna kaup á rannsóknartækjum, uppbyggingu rannsóknarinnviða og aðgangs að rannsóknarinnviðum. Sjóðurinn er ætlaður háskólum, opinberum rannsóknastofnununum og fyrirtækjum. Að þessu sinni hlutu tvö verkefni vísindamanna innan Landbúnaðarháskólans styrki.
Búveðurstöð
Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) í samstarfi við Veðurstofu Íslands og Hvanneyrarbúið hlaut styrk til uppsetningar á nýrri sjálfvirkri veðurstöð á Hvanneyri. Upplýsingar sem fást úr veðurstöðvum eru mikilvægar rannsóknum sem stundaðar eru m.a. í jarðrækt. Núverandi veðurstöð sem staðsett er miðsvæðis í þorpinu, er úrsér gengin. Þar eru mælitæki orðin gömul og einhver hafa eyðilagst. Að auki nýtist gamla stöðin illa við búveðurrannsóknir vegna staðsetningar sinnar innan þéttbýlisins og vöntun á sértækum búveðurmælingum, þ.e. mælingar á öðrum þáttum sem hafa bein áhrif á vöxt og afkomu planta.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í jarðræktarrannsóknum við Landbúnaðarháskóla Íslands undanfarið og með hlýnandi loftslagi er mikil þörf á að auka rannsóknir á nytjaplöntum svo hægt sé að efla fæðuöryggi á Íslandi. Landbúnaðarháskólinn, í samstarfi við Veðurstofu Íslands stefna að þessi búveðurstöð við Jarðræktarmiðstöð Lbhí á Hvanneyri verði sú fullkomnasta á Íslandi. Búveðurstöðin mun auka hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna LbhÍ fyrir landbúnaðinn og auka rannsóknamöguleika landbúnaðarvísindamanna ásamt annarra fræðimanna í sviði umhverfisvísinda. Það er mat stofnanna tveggja að ný búveðurstöð af þeirri gerð sem lagt er upp með muni að auki bæta veðurspár á Vesturlandi sem og vöktun veðurs og loftslagsbreytinga á Íslandi.
Mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda
Þá fékkst styrkur til kaupa á sérhæfðum færanlegum gasgreini til mælinga á metani (CH4), sem er næst mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin í andrúmsloftinu þegar kemur að hlýnun jarðar. Hingað til hafa mjög litlar rannsóknir farið fram á Íslandi á áhrifum búrekstrar og landnýtingar á losun og bindingu metans og þetta tæki eflir því til muna rannsóknagetu LbhÍ á þessu sviði. Tækið mun nýtast vel við ýmsar langtíma rannsóknir sem nú þegar eru í gangi við skólann eins og áhrif hlýnunar jarðvegs á hálendi Íslands sem og votlendisrannsóknir.
Kaup á þessu mælitæki er liður í eflingu náttúru- og umhverfisrannsókna við Landbúnaðarháskólann þar sem meðal annars eru skoðuð áhrif landnýtingar og búfjárhalds á loftslagið. Í því sambandi má nefna að samstarfsverkefni við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kom nýlega að eflingu rannsókna á iðragerjun og losun gróðurhúsaloftegunda búfjár og verið er að koma upp öðrum skyldum mælitækjum sem eru sérhönnuð fyrir mælingar á gróðurhúsalofttegundum innahnúss í því sambandi. Efling á þessum sviðum mun því veita okkur betri skilning á raunverulegri losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnýtingar og búfjárhalds á Íslandi og stuðla að því að landbúnaðurinn leiki lykilhlutverk þegar kemur að skulbindingum Íslands um að landið verði kolefnishlutlaust árið 2040.