„Skipunartíma núverandi rektors Landbúnaðarháskóla Íslands lýkur 31. júlí nk. Fyrir liggur að hann sækist ekki eftir endurráðningu á nýju skipunartímabili. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008, ber háskólaráði við þessar aðstæður að undirbúa tilnefningu nýs rektors.
Í ljósi þessa leggur háskólaráð Landbúnaðarháskóla Íslands til við mennta- og menningarmálaráðherra að Dr. Björn Þorsteinsson aðstoðarrektor kennslumála verði með heimild í 24. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, settur í embætti rektors til 31. desember nk. Háskólaráðið mun þegar hefja undirbúning að tilnefningu nýs rektors Landbúnaðarháskóla Íslands sem ráðherra skipar til fimm ára frá og með 1. janúar 2015. Háskólaráð hefur ákveðið að starfið verði auglýst opinberlega.
Háskólaráð hefur skipað sérstaka undirbúningsnefnd sem í sitja Sigríður Hallgrímsdóttir, Bjarni Stefánsson og Hilmar Janusson sem mun undirbúa ráðningarferlið. Gert er ráð fyrir að auglýsa starfið í byrjun september. Stefnt er að því að niðurstaða um ráðningu nýs rektors liggi fyrir í desember.“
Þessi ákvörðun er fagnaðarefni fyrir starfsemi LbhÍ og Birni fylgja árnaðaróskir.