Bjarni Diðrik Sigurðsson, skógfræðingur og prófessor við LbhÍ, er í rannsóknarleyfi frá skólanum í vetur og dvelur nú í Barcelona þar sem honum bauðst að vera gestaprófessor við skógvistræðistofnun UAB (Universitat Autònoma de Barcelona) háskólans þar í borg. Nemendurnir við skólann eru mun fleiri en við nokkurn íslenskan háskóla, eða um 45.000 og starfsmenn eru um 7.000. Háskólasvæðið er það stórt að það gengur strætisvagn á milli starfsstöðva, strætóinn er rekinn af háskólanum innan svæðisins.
Skógarvistfræðistofnun UAB er skammtöfuð CREAF, sem stendur fyrir Centre de Recerca Ecològica i d´Aplicacion Forestals og segist Bjarni ætla að nýta sér þetta tækifæri til að læra sjálfur meðfram því að fræða spænska nemendur. Auk þess ætlar hann að reyna að nýta hinar frábæru alþjóðlegu tengingar sem rannsóknarstofnunin hefur en Bjarni er nú þegar orðinn þátttakandi í umsóknarferli um Evrópustyrk fyrir verkefni sem Landbúnaðarháskóli Íslands gæti orðið aðili að.