Áshildur Bragadóttir hefur verið ráðin sem endurmenntunarstjóri Landbúnaðarháskóla Íslands og leysir af Guðrúnu Lárusdóttur sem er í námsleyfi. Áshildur hefur víðatæka stjórnunarreynslu frá stórum og smáum fyrirtækjum og stofnunum en hún gegndi m.a. áður störfum sem markaðs- og kynningarstjóri viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands, markaðsstjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs, forstöðumaður Höfuðborgarstofu og fjármála- og rekstrarstjóri hjá stafrænu auglýsingastofunni Sahara. Samhliða hefur Áshildur einnig sinnt kennslu á háskólastigi, starfað við leiðsögn, verið í ráðgjöf og gegnt ýmsum trúnaðar- og stjórnarstörfum, og situr hún m.a. í stjórn Íslandsstofu og meistararáði HK í handbolta.
Áshildur er viðskiptafræðingur með MSc í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla og stundar nú meistaranám í kennslufræði við sama skóla. Hún er jafnframt annar af eigendum heildsölunnar Eco life sem flytur inn umhverfisvænar og vistvænar vörur fyrir fyrirtæki og heimili.
„Ég vona að áralöng reynsla mín af markaðs- og kynningarstörfum, rekstri og stefnumótun og kennslu á háskólastigi nýtist vel í störfum mínum sem endurmenntunarstjóri Landsbúnaðarháskóla Íslands og ég hlakka mikið til verkefnanna fram undan. Landbúnaðarháskóli Íslands er framsækinn skóli sem býður upp á fjölbreytt nám og þar leggur Endurmenntunin sitt af mörkum. Ég mun leggja áherslu á að halda áfram að veita fólki tækifæri til að sækja sér styttri og lengri námskeið sem tengjast fræðasviðum skólans, m.a. á sviði landbúnaðarframleiðslu og ræktunar lands, skógræktar og umönnunar umhverfis, landslagsarkitektúrs og skipulagsfræða, búvísinda og hestafræða, sem og garðyrkjuframleiðslu og blómaskreytinga. Hjá skólanum starfar breiður hópur sérfræðinga og ég er þess fullviss að það sé mikil eftirspurn eftir þeirra fagþekkingu. Mikil tækifæri liggja í nýsköpun á sviði matvælaframleiðslu, landgræðslu og umhverfisverndar þar sem verðmætasköpun og sjálfbær nýting auðlinda er í fyrirrúmi og þar tel ég að Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands eigi að vera í fararbroddi í fræðslu til almennings.“
Við bjóðum Áshildi innilega velkomna til starfa.
Nánari upplýsingar um starfsemi endurmenntunar LbhÍ má finna hér, endurmenntun.lbhi.is