Þriðjudaginn 28. maí munu Ásgeir Valdimar Hlinason og Magnea Magnúsdóttir verja meistararitgerðir sínar við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Varnirnar verða kl. 13.30-15.30 í húsakynnum skólans á Keldnaholti, Ásgeir kl. 13.30 og Magnea kl. 14.30. Í lok athafnar verður boðið upp á kaffi.
Ritgerð Ásgeirs heitir Lífshættir flundru á ósasvæði Hvítár í Borgarfirði. Leiðbeinandi er Sigurður Már Einarsson.
Með hækkandi sjávarhita hefur nýjum fisktegundum í hafinu umhverfis Íslands fjölgað. Á undanförnum árum virðast fjórar nýjar tegundir hafa náð fótfestu hérlendis, steinsuga, sandrækja, grjótkrabbi og kolinn flundra, sem einnig nýtir búsvæði í árósum og ferskvatni á hluta lífsferilsins, en tegundin var fyrst greind á Íslandi árið 1999. Markmið rannsóknarinnar var að kanna útbreiðslu flundru við Ísland, og lífshætti flundru á vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði ásamt umhverfisþáttum. Göngur flundrunnar inn á ósasvæðið fóru eftir árstíðum, lítið af fiski kom um vorið en jókst er leið á haustið. Geldfiskur var ríkjandi er ofar dró í ósnum. Kynþroska fiskur gekk utar um haustið, en geldfiskar urðu eftir. Hængar urðu fyrr kynþroska. Aldur flundrunnar spannaði frá 0+ til 8+ (vorgömul seiði - flundru á níunda ári) og hrygnur voru algengari í eldri aldurshópum. Flundrurnar voru á lengdarbilinu 8-42 cm. Mikill breytileiki kom fram í fæðu flundrunnar eftir stöðvum en hún er mjög ósérhæfð í fæðuvali. Flundra er afræningi á fiskum, m.a. laxfiskum, og fæðuval flundru og laxfiska skarast að töluverðu leyti, t.d. á, fæðugerðunum ögnum, marfló og trönusíli. Samkeppni ríkir því að einhverju leyti um fæðuna á ósasvæði Hvítár milli flundru og laxfiska. Samkvæmt könnuninni nær útbreiðsla flundrunnar nú frá Breiðdalsvík að austanverðu, réttsælis meðfram landinu og norður í Skagafjörð. Flundran virðist ekki hafa numið land frá norðanverðum Skagafirði að Breiðdalsvík.
Ritgerð Magneu heitir Mosaþembur - Áhrif rasks og leiðir til endurheimtar. Aðalleiðbeinandi er Ása L. Aradóttir og meðleiðbeinandi Sigurður H. Magnússon.
Töluvert rask verður á mosaþembum vegna ýmissa framkvæmda. Því er mikilvægt að auka þekkingu á mosaskemmdum og leiðum til að endurheimta mosaþekju þar sem hún hefur raskast. Markmið verkefnisins var að skoða getu skemmdra hraungambraþemba við háhitaborteiga til að mynda endurvöxt og að prófa aðferðir við að örva landnám mosa. Verkefnið var unnið í fjórum hlutum: 1) Skemmdir á hraungambraþembum við borteiga á Hellisheiði og geta þeirra til endurvaxtar var könnuð með því að mæla tíðni skemmdra og virkra sprota í tvö ár. 2) Áhrif þess að klippa 1,2, 3 og 5 cm af greinum í hraungambraþembu voru prófuð til að líkja eftir skemmdum og tíðni endurvaxtar mæld. 3) Áhrif stærðar, uppruna af greinum og undirlags á fjölgunareiningar hraungambra voru prófuð í
gróðurhúsi með því að rækta heilar greinar, 1 cm búta af efstu 6 cm greina og mosahræring á mold og vikri. 4) Í tilraunum með landnám mosa á Hellisheiði voru áhrif stærðar og undirlags prófuð í 15 mánuði með því að dreifa heilum greinum, 1 cm greinabrotum af efsta hluta greina og mosahræringi af hraungambra, melagambra, tildurmosa og engjaskrauti í moldarflagi ásamt því sem hraungambra var dreift á vikri. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að skemmdar hraungambraþembur við háhitaborteiga geti vaxið aftur ef skemmdirnar ná ekki dýpra en 3 cm. Niðurstöðurnar sýna einnig að hægt er að nota heilar greinar, 1 cm greinabrot efst af greinum og mosahræring til að örva landnám mosa á röskuðum svæðum, mold sem undirlag getur þó verið takmarkandi þáttur fyrir heilar greinar og 1 cm greinabrot. Þessar niðurstöður geta nýst við ákvörðunartöku um vistheimtaraðgerðir á skemmdum mosaþembum og í vistheimt á röskuðum svæðum þar sem mosar eru ríkjandi.