Alþjóðlegur dagur skóga föstudaginn 21. mars

Ógróið eða illa gróið land á láglendi nær yfir um tólf prósent landsins, um 12.400 ferkílómetra. Á þessu landi getum við ræktað verðmætan skóg og fengið milljónir króna af hverjum hektara. Í tilefni alþjóðlegs dags skóga þann 21. mars hefur Skógrækt ríkisins sett saman myndband um nytjaskógrækt á auðnum.

Víða um heim er efnt til gróðursetningar, útivistar og annarra viðburða í skógum á alþjóðlega skógardeginum en slíkt hentar síður á Íslandi vegna þess að hér er enn vetur. Útivist er þó að sjálfsögðu alltaf möguleg í skógi og skógarnir gefa ekki síst dýrmætt skjól gegn vetrarveðrum.

Skógrækt hefur gríðarlega möguleika á Íslandi. Hér er nær ótakmarkað land til skógræktar og lengi hægt að rækta skóg án þess að slíkt komi niður á annars konar landnotkun. Auk þess felst geysileg verðmætasköpun í skógrækt. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að rækta asparskóg á eyðisöndum og að fimmtíu árum liðnum verða tekjurnar af hverjum hektara um tvær milljónir króna að núvirði. Rækti landeigandi ösp á 100 hekturum verða verðmætin sem afkomendur hans skera upp úr skóginum eftir hálfa öld um 200 milljónir króna.

Með skógrækt á melum og söndum víða um landið hefur verið sýnt fram á að nytjaskógrækt, öðru nafni timburskógrækt, er möguleg á gjörsnauðu landi. Með slíku starfi endurheimtum við landgæði, drögum úr jarðvegstapi, búum til skjól, öflug og sjálfbær vistkerfi og ekki síst gríðarleg verðmæti fyrir komandi kynslóðir. Ef ekkert er ræktað verða ekki til nein verðmæti. Ef ekki eru gróðursett tré núna verða engin tré til að fella eftir 50-80 ár.

Smellið hér til að horfa á myndbandið með ljósmyndum og fróðleik um skógrækt á beru landi.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image