Sú hefð hefur skapast að hengja upp nemendaspjöld afmælisárganga ár hvert við innganginn í Ásgarði, starfsstöð skólans á Hvanneyri. Í sumar og haust fengum við þrjá af þessum árgöngum í skemmtilegar heimsóknir.
Um miðjan september sótti okkur heim að Hvanneyri hópur 50 ára búfræðinga sem útskrifaðist 1970. Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor og Ragnhildur Helga Jónsdóttir brautarstjóri og framkvæmdastjóri Landbúnaðarsafns Íslands tóku á móti hópnum og sýndu frá stefnu og starfi skólans í dag ásamt því að rifja upp gamla tíma með skoðunarferð um staðinn og gömlu byggingarnar. Að lokum fór hópurinn að Mið-Fossum þar sem Elín Davíðsdóttir umsjónarmaður tók á móti og sýndi aðstöðuna en þar nýtir skólinn hestamiðstöðina til kennslu og nemendur til afnota.
Um mitt sumar tókum við á móti 60 ára afmælisárgangi búfræðinga sem átti góða stund saman og skoðaði aðalbygginguna á Hvanneyri, Ásgarð og snæddi súpu í mötuneytinu. Rósa Björk Jónsdóttir kynningarstjóri og Álfheiður B. Marinósdóttir tóku á móti hópnum og sögðu frá stefnu skólans og starfsemi í dag og báru saman við eldri tíma. Hópurinn safnaðist saman fyrir myndatöku ásamt mökum fyrir framan Ásgarð áður en haldið var í gönguferð um staðinn.
Í vor komu síðan afmælisárgangur Búfræðikandídata BSc. frá Framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri 1970. Hópurinn gaf Hvanneyrarstað níu birkiplöntur sem gróðursettar voru við tjarnarsvæðið og festi rektor, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir skjöld með áletrun um gjöfina og gefendur við plönturnar. Að lokinni stuttri athöfn var drukkið kaffi í Skemmunni, elsta húsi staðarins sem hefur gengt hlutverki safnaðarheimilis undanfarin ár.
Skólinn óskar öllum afmælisárgöngum til hamingju og þakkar fyrir góðar heimsóknir og velvild.