Nýlega kom út grein í vísindaritinu FEMS Microbiology Ecology frá rannsóknum starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands og erlendra samstarfsmanna á jarðvegsörverum og jarðvegsfrumdýrum. Þau Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor og brautarstjóri skógfræðibrautar og Niki Leblans sem var doktorsnemi hans við LbhÍ eru meðal höfunda.
Miklar framfarir hafa orðið á síðustu árum í jarðvegsvistfræði, ekki síst vegna þess hversu erfðagreiningar eru orðnar auðveldar og hlutfallslega ódýrar, sem hefur aukið getu náttúrufræðinga að nota þær aðferðir til að rannsaka samfélög og magn örvera og annarra lífvera í jarðvegi. Þessar lífverur leika lykilhlutverk í öllum hringrásum jarðvegsins og eru því oft lykillinn að auknum skilningi okkar á hvað takmarkar t.d. frjósemi og fleiri jarðvegseiginleika.
Rannsóknin fjallar um hvernig mismunandi umhverfisaðstæður á heimsvísu (milli heimsálfa) og innan smærri svæða með mikinn umhverfisbreytileika (t.d. ForHot rannsóknasvæðið á Reykjum í Ölfusi) hafa áhrif á magn og samsetningu jarðvegslífvera (baktería, sveppa, frumdýra og fjölfrumunga (Metazoa) og bera þær niðurstöður saman við árstíðabreytileika í samsetningu og magni þessara lífvera á t.d. Íslandi.
Greinina má nálgast hér