Útskrift Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna fór fram í gær, 19. september. Tíu sérfræðingar frá sjö löndum Afríku og Mið-Asíu luku námi, fimm konur og fimm karlar. Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, afhenti útskriftarskírteinin og ávarpaði samkomuna. Í ávarpi sínu lagði hann m.a. áherslu á mikilvægi landgræðslu og sjálfbærrar landnýtingar á alþjóðavettvangi og gott starf Landgræðsluskólans á því sviði í þágu framfara í þróunarlöndum. Landgræðsluskólinn er alþjóðlegur skóli sem þjálfar sérfræðinga frá fátækum þróunarlöndum í landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu. Þátttakendurnir eru starfsmenn samstarfsstofnana Landgræðsluskólans í Afríku og Mið-Asíu og nú eftir sex mánaða þjálfun á Íslandi halda þau aftur til sinna starfa og munu þar miðla af þekkingu sinni til síns samstarfsfólks.
Landgræðsluskólinn hóf störf árið 2007 og hefur verið aðili að Háskóla Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2010. Landgræðsluskólinn starfar í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Ísland sem hýsir skólann, Landgræðslu ríkisins og utanríkisráðuneytið. Frá árinu 2007 hafa 51 sérfræðingar frá tíu löndum útskrifast frá skólanum.
Á meðfylgjandi mynd má sjá nemendur, ráðherra og starfsmenn í lok athafnarinnar.