Erum við Íslendingar betur eða verr settir en margar aðrar þjóðir? Eigum við tækifæri á einhverjum sviðum umfram aðrar þjóðir? Við skólaslit Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir nokkrum árum sagði Ágúst Sigurðsson rektor eftirfarandi orð og skildi eftir stóra spurningu í loftinu. »Ísland bíður eftir fólki sem kann til verka á sviði auðlinda- og umhverfisfræða með breiðri skírskotun, þetta er fólkið sem mun móta nýtt Ísland og skapa land sem býr að eigin auði.«
Í veröld sem stefnir óðfluga í tíu milljarða manna verður það maturinn sem skiptir öllu máli og meðferð og nýting auðlinda jarðarinnar. Í dag gengur einn milljarður manna svangur til rekkju sinnar, ef þessi svangi hópur á annað borð á rúm. Það er verk að vinna og hvert stefnum við unga og gáfaða fólkinu í framhaldsnám? Oft er látið eins og lögfræði eða viðskiptafræði séu einu tækifæri lífsins og allir stærri háskólar hafa gert kennslu á þeim sviðum að aðalatriðum í sínu skólastarfi. Landbúnaðarháskóli Íslands, áður Bændaskólinn á Hvanneyri, og Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi og svo Háskólinn á Hólum, sem var einnig bændaskóli, hafa hinsvegar beint sjónum sínum að umræddum málaflokkum. Nú gegna þessir tveir háskólar, þó ekki séu þeir fjölmennir, lykilhlutverki á þessu mikilvæga sviði og eiga samstarf við aðra háskóla hér heima og erlendis.
Þekking og rannsóknir eru forsenda framfara
Það er eitt sem við verðum að átta okkur á og það er að þekking íslenskra bænda og sjómanna hefur gert það að verkum að í báðum gömlu en síungu grunnatvinnuvegunum hafa framfarir sem rekja má til rannsókna skilað okkur í fremstu röð. Rannsóknir á íslenskum forsendum. Við megum ekki glata þekkingu bænda og ráðunauta; við megum heldur ekki glata þekkingu landbúnaðarvísindamanna - þvert á móti. Við verðum sem þjóð með einstakan árangur í framleiðslu á hágæðamatvælum sem auðvelt er að auka framleiðslu á og þar með störf í landinu að stórefla landbúnaðarrannsóknir.
Sá tími er runninn upp að moldarkögglarnir eru dýrmætari en gull. Þekking á fræjum, jurtum, trjám og blessuðum húsdýrunum er ein af meginundirstöðum þess að komast af í framtíðinni. Landbúnaðarvísindamenn og ráðunautar, sem í störfum sínum byggja á íslenskum rannsóknum, skipta miklu máli í framþróun landbúnaðarins. Matvælaframleiðsla þykir kannski ekki merkilegasta verkefnið á stóru stundum ræðuhaldanna, en hún snýst þó um að lifa af. Sú þjóð sem fær tvö strá til að vaxa þar sem var eitt áður er á réttri leið.
Efnahagshrunið 2008, þar sem bankamenn með engin vísindi á bak við sig heldur bara græðgi og skammtímagróða, velti veröldinni um koll. Vonandi hefur sú skelfing kennt okkur lexíu. Það gerði gosið í Eyjafjallajökli sem orsakaði tímabundin skakkaföll í flugi um víða veröld.
Hnitmiðaðar, íslenskar landbúnaðarrannsóknir
Nú er til umræðu endurskipulagning náms og niðurskurður vegna erfiðleika ríkisins. Í þeirri umræðu verða stjórnmálamenn og allir okkar fremstu hagspekingar að spyrja sig, hvaða menntun er líkleg til að skila arði í lófa framtíðarinnar? Það kann að vera að margir haldi að hægt sé að hafa af landinu hámarksarð án þess að bak við það séu hnitmiðaðar íslenskar landbúnaðarrannsóknir, unnar af fólki sem þekkir bæði landið og þjóðina. Slíku er bara ekki til að dreifa.
Tækifærin liggja í auðlindum hafs og lands
Síbreytilegt umhverfi, ógnir í umhverfismálum, gera það að verkum að hafi starf sem unnið er í skóla á borð við Landbúnaðarháskóla Íslands verið mikilvægt - þá er það lífsspursmál fyrir framtíðina. Stórstígar framfarir í búfjárrækt og ekki síður í öflun fóðurs og aðbúnaði að skepnunum hefur skilað okkur miklu á síðustu áratugum. Nú vekur íslensk náttúra og íslenskar landbúnaðarafurðir mikla athygli um víða veröld og margir færustu náttúruvísindamenn heimsins vilja vinna með okkur. Um leið og við þróum nýja og öfluga atvinnuvegi, eins og í ferðaþjónustu, þá liggja enn okkar stærstu tækifæri í auðlindum hafsins og landsins. Ég verð þess var að það er vaxandi virðing fyrir störfum fiskimanna og bænda og þar er líka gnægð nýrra tækifæra fyrir Ísland.
Fjárfestum í mannauði
Ég bið stjórnmálamennina okkar, sem eru allir af vilja gerðir að reisa landið til nýrrar sóknar, að standa vörð um landbúnaðarfræðsluna og finna leiðir til að beina í vaxandi mæli ungu fólki inn á svið auðlinda- og umhverfisfræða. Það þarf að rétta hlut landbúnaðarháskólanna svo þeir megi leiða okkur inn á ný ræktunarlönd, þar glittir í varphænur sem munu verpa gulleggjum. Í kreppunni miklu um 1930 settu stjórnmálamennirnir aukið fé í skóla og menntun, þeir vissu sem var að þar eru tækifærin. Það er nefnilega fólkið, almenningur, sem er gull þjóðanna og öflugustu afurðirnar í hverju landi. Nú ber að fjárfesta í mannauði framar öllu öðru.
/Guðni Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra og formaður Hollvinafélags LbhÍ. Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 21. ágúst.